Saumalíf

27 október, 2005

Myndir

Jæja nú er ég búin með Sleigh Ride frá Mill Hill og saumaði síðustu sporin hjá Lindu í dag svo ég gæti fengið hana til að taka mynd fyrir mig. Hún tók líka mynd af Bee Squeare og hér koma þær báðar, ástarþakkir fyrir myndtökuna Linda.


Nú er ég byrjuð á haustmynd frá Mill Hill svona sem tilbreytingu frá jóladótinu og það er bara gaman að sauma með smá haustlitum.

23 október, 2005

Innkaup listi I

jæja ég ætla að setja inn linka á munstrin og kittin sem ég keypti í London svona til að deila þessu með ykkur.

Michael Powell - Secret Garden I
Michael Powell - Mini Cottages I
Michael Powell - Pit Head
The Sweetheart Tree - Blackberry Jam
Needlepoise - Birds eye view
Lizzie Kate - Peace on Earth
Linda Myers - Quilt Sampler X
Raise the Roof - Witchy Washy
Waxing Moon Designs - Christmas Stack
Waxing Moon Designs - The most stash
Waxing Moon Designs - Three little kittens
Waxing Moon Designs - Naughty or Nice
San Man Orginals - It's laundry time
The Drawn Thread - The Brown Ranch Sampler
The Drawn Thread - Real Rose
Shepherds Bush - Come Tarry
Shepherds Bush - Winterberry Buttons
Shepherds Bush- Buttoned Yule
Bent Creek - Floss

Sumt af þessu eru kitt með öllu, með sumu fylgja bara tölur og sumt eru bara munstur. Ég er nú nokkuð ánægð með innkaupin en á eftir að láta Mill Hill listann inn en geri það fljótlega.
Ég er annars búin að vera að sauma jóladót í dag og auðvitað frá Mill Hill, nýja myndin heitir Sleigh Ride og er bara nokkuð skemmtileg í saumum.

21 október, 2005

Klári klári klári

Jæja ég er búin að klára Bee Squeare og það er bara held ég ein flottasta Mill Hill myndin sem ég hef gert. Hún er sko ekki að njóta sín utan á pakkanum og það er alveg ótrúlegur munur að sjá þessar myndir saumaðar svona í eigin persónu heldur en á mynd. Nú verð ég að fara að skoða í pokana frá London og sjá hvað ég finn skemmtilegt, Linda er búin að stinga uppá þessari hérna og ég er með það í athugun ;-) Ég set svo inn mynd af Bee Squeare þegar ég næ í myndavél á eftir.

Hænan Henríetta búin

Jæja það biðu eftir mér amk 100 perlur frá Mill Hill þegar ég kom heim svo ég dreif í að festa þær sem voru eftir og klára Henríettu. Ég er bara mjög ánægð með hana og langar núna í hanana frá Mill Hill á móti henni. Það voru engar svoleiðis myndir til á sýningunni en það kemur að því að ég næli mér í þá.

Núna er ég langt komin með Bee Squeare frá Mill Hill og planið er að klára það stykki áður en ég fer að sauma eitthvað af því sem ég keypti úti.

Ég á líka eftir að koma mér af stað í MS jóladögunum en ég var ekki byrjuð á þeim því ég ætlaði að kaupa efni úti sem ég og gerði. Ég ákvað að sauma þetta í svona off white opalescent Aida sem er bara ansi flott og glitrar voða jólalega.

Svo er bara að segja úllen dúllen doff þegar kemur að því að velja stykki til að byrja á. Ég ætla að birta linka á innkaupin fljótlega svo þið getið notið þess með mér.

20 október, 2005

Komin heim

Jæja þá er ég komin heim úr reisunni og er bara hress með ferðina. Sýningin var frábær og ég eyddi að sjálfsögðu allt of miklu af peningum, ég finn bara hvernig VISA kortið mitt skelfur af hræðslu þegar ég opna veskið eftir þessa ofnotkun á því ;-)
Hér sést ég í action á sýningunni að versla


Ég keypti alveg helling af mynstrum, Mill Hill kittum, efnum og svo náttúrulega föt og jólagjafir og svona.

Að lokum er ein mynd fyrir Lindu svo hún geti öfundað mig en hér er ég að háma í mig sushi á þessum líka frábæra sushi bar, Hákon lét sér hins vegar nægja að taka mynd en hafði ekki áhuga á að borða hráann fisk.

10 október, 2005

Bee Square

Jæja ég er búin að fá svar frá Mill Hill og sýnist að þeir ætli að senda mér perlunar eða ég vona það amk. þetta bréf er samt voða snubbótt og virkar nú ekki beint svona sannfærandi frá markaðsfræðilegu sjónarmiði en hér er bréfið:

We will forward to you, sorry.

Mér finnst nú að þeir hefðu getað svona skrifað aðeins meira professional bréf en mér er svo sem alveg sama ef ég fæ perlurnar.

En ég er sem sagt búin með hænuna fyrir utan að festa á þessar 72 perlur og ætla að byrja á Bee Square kittinu frá Mill Hill núna.
Ég á samt ekki von á að sauma neitt of mikið þangað til ég fer út því ég er svo hræðilega flughrædd að mig er farið að kvíða ansi illilega fyrir strax.

09 október, 2005

Mill Hill vandræði

Jæja ég er búin að vera í tómum vandræðum með Mill Hill kittið sem ég er að sauma, fyrst þá gerði ég graskerið sem hænan á að liggja á of ofarlega og þurfti að rekja upp. Ég hata að rekja upp í pappa og það voru líka komnar perlur í og allt mögulegt, jæja ég lagaði það og saumaði upp á nýtt og byrjaði síðan á hænunni sjálfri og saumaði hana náttúrulega of langt til hægri. Er sem sagt búin að vera að rekja upp og laga alla helgina og hef ekki saumað neitt jóladót.

Ég þekki sjálfa mig og veit að ef ég hefði ekki barist í gegnum þetta núna þá fengi hænan að liggja ofan í skúffu forever bara. Ég fór svo að sauma jörðina sem graskerið liggur á og festa á perlur og þá kemur í ljós að það vantar hvorki meira né minna en 72 perlur í kittið. Ég skil nú kannski með eina eða tvær en þetta er nú aðeins of mikið, ég er búin að skrifa út og vona að þeir geti sent mér þetta sem fyrst.

Annars er bara kominn spenningur í mig fyrir ferðinni til London og ég hlakka svo til að fara á sýninguna og skoða og kaupa kannski smá.

06 október, 2005

Mill Hill og meira Mill Hill

Jæja ég kláraði piparkökukallinn frá Mill Hill í fyrrakvöld og er búin að taka mynd og það eina sem er eftir er sauma textann neðst. Ég bara get ekki ákveðið mig hvað á að standa þarna og þarf líka að finna rétta stafrófið. Er að spá í gleðileg jól en finnst það samt smá svona hugmyndasnautt eitthvað. Ef einhver hefur betri hugmynd endilega láta mig vita, upprunalegi textinn er "I love Christmas" en mér finnst nú íslenskun á því frekar hallærisleg.


Annars er hætt að leka hérna og af einhverjum undarlegum ástæðum þá fóru ofnarnir að hitna um leið og lekinn hafði verið stoppaður. Ég á seint eftir að botna í svona pípulögnum en er bara kát með að það sé kominn hiti sama hver ástæðan er.

Ég var byrjuð á kitti frá Mill Hill sem heitir Henriettas Harvest núna fyrr í haust en lagði það frá mér en ákvað að taka það fram aftur og reyna að klára gripinn og hér sést stöðumynd í gærkvöldi.


Ég reyndar vakti aðeins frameftir í gær og er núna búin með maískornin og hornreitina líka og þetta er alveg verulega flott mynd. Svo er hænan henríetta í miðri myndinni og ég ætla að sauma í hana í dag. Ég er líka búin að vera dugleg að hlusta á hljóðbækur á meðan ég sauma og er núna að hlusta á London Bridges eftir James Patterson. Þetta er Alex Cross bók og hún er bara nokkuð góð þó hún sé ekki sú besta sem ég hef heyrt eftir hann. Mitt uppáhald eru "Roses are Red" og "Violets are blue" tvennan sem var hörkuspennandi. Ég heyrði líka um daginn "4th of July" eftir sama höfund sem er fjórða bókin í flokki um lögreglukonuna Lindsay Boxer og sú sería lofar góðu. Annars á ég eftir að hlusta á fullt af góðum bókum og næst á dagskránni er held ég seinni bókin um Abarat en sú fyrri var þrælgóð og ég hlakka til að heyra þessa.

04 október, 2005

Allt á floti allstaðar

Ég var hérna heima alsæl að sauma í morgun þegar Erlendur Helgi kom heim í frímínútum og benti mér á að það læki vatn úr loftinu á baðherberginu. Ég fékk náttúrulega vægt sjokk og fór beint upp á næstu hæð og tékkaði á málunum en þau höfðu ekki orðið vör við neitt.

Ég hringdi í svo í tryggingarfélagið sem sendi pípara á staðinn og niðurstaðan er sú að það er sprungið rör í gólfinu á næstu hæð fyrir ofan og lekur niður til mín og nú er farið að leka líka inn í næsta herbergi við og sennilega inn í millivegginn á milli baðsins og herbergisins líka.
Parkettið er í stórhættu, flísarnar á baðinu í vondum málum og ég sé fram á meiriháttar vesen.
Ég vorkenni samt gömlu hjónunum á hæðinni fyrr ofan mig mest því þau eru nú ekki til neinna stórafreka og það þarf að brjóta upp hjá þeim og rífa alveg helling til að komast fyrir þetta.
Blokkin er líka heitavatnslaus og verður það þangað til að búið er að gera við og það verður nú sjálfsagt ekki vinsælt hjá sumum nöldurskjóðunum hérna.

Ég er alveg búin á þessu og það síðast sem mig langar til er að sauma í UFO svo ég ætla bara að hafa saumadekurdag núna og gera það sem mig langar til, sem eru auðvitað að sauma í Mill Hill kittið mitt en það ætti nú að klárast í kvöld ef ég fæ saumafrið.

02 október, 2005

The Rat Pack

Jæja þá erum við búin að ákveða á hvaða söngleik við ætlum í London og það er The Rat Pack - Live from Las Vegas sem byggir á lögum Frank Sinatra, Sammy Davis Jr. og Dean Martin, þetta er alveg eðaltónlist og ég hlakka mikið til að sjá þetta.

Dagskráin fyrir London er amk að skýrast, á fimmtudeginum förum við á saumasýninguna, föstudagskvöldið í leikhúsið og á laugardagsmorguninn á Portobello Road markaðinn.

Jólalaugardagur og fleira

Jæja þá er enn einn jólalaugardagurinn að baka, ég var nú ekki neitt rosalega dugleg að sauma í stykkið mitt en þó aðeins, er að byrja á afturstingnum og það er nú svo sem ekki neitt stórmál. Ég tók allavega stöðumynd og svo bara stefni ég á að klára næsta laugardag.

Annars er ég með á stefnuskránni að klára 3 svona fyrir þessi jól. Það er bara svo margt annað sem mig langar líka að sauma af svona jólaskrauti og er að hugsa um að sauma þrjár af kisunum sem eru frá Dimensions líka.

En ég er búin að nota tímann vel þessa daga sem ég er búin að vera veik og er búin með eitt Mill Hill kitt í viðbót. Það heitir Winter Welcome, en ég fékk íslenskun á því hjá Lindu sem var búin að búa til stafi og allt í PM svo það var bara að sauma það í og nú heitir það Snjókorn Falla sem er alveg við hæfi finnst mér. Afrekið sést hér að neðan.


Eftir að ég kláraði þetta þá byrjaði ég á einu enn Mill Hill kitti sem heitir I love Christmas en ég ætla nú að íslenska það og var bara að hugsa um Gleðileg Jól eða eitthvað svoleiðis en allar hugmyndir eru vel þegnar. Ég tók stöðumynd af gripnum og finnst ég bara vera búin með nokkuð mikið síðan í gærkvöldi enda gengur saumaskapurinn vel á meðan ég hlusta á þessa eðalbók sem ég er með í spilaranum.

01 október, 2005

Nýtt klukk

Jæja ég hef verið klukkuð aftur og hér er afraksturinn af nýja klukkinu.

1. 7 hlutir sem að ég vil gera áður en ég dey:
  • Sjá öll börnin mín verða að hamingjusömu og heilsteyptu fólki
  • Kunna að meta augnarblikið
  • Ferðast til allra heimsálfa
  • Læra að dansa
  • Læra fleiri tungumál
  • Njóta hvers dags eins og hann er
  • Finna út hvað mig langar að gera þegar ég verð stór
2. 7 hlutir sem að ég get:
  • Saumað út
  • Bakað góð gerbrauð
  • Skipulagt hluti
  • Vakað frameftir
  • Hlegið með vinum mínum
  • Hlustað á tónlist
  • Horfið inn í bækurnar sem ég er að lesa
3. 7 hlutir sem að ég get ekki gert:
  • Borðað kanínukjöt
  • Sagt ósatt
  • Verið í leikfimi með tónlist
  • Dansað tangó
  • Saumað allt sem mig langar til í einu
  • Vaknað snemma hress og kát
  • Eignast fleiri börn
4. 7 atriði sem að heilla mig við hitt kynið:
  • Húmor
  • Augnaráð
  • Bros
  • Gáfur
  • Heiðarleiki
  • Líkamsburður
  • Staðfesta
5. 7 frægir sem að heilla
  • Jonny Depp
  • Keanu Reeves
  • Sean Connery
  • Harrison Ford
  • Bruse Willis
  • Liam Neeson
  • Russel Crow ( í Bautiful Mind)
6. 7 orð sem að ég segi oftast
  • Nei
  • Ok
  • Elskan
  • Sweety
  • krakkar (þegar ég tala við allann hópinn)
Nú skora ég bara á alla sem ekki eru búinir að taka þátt í að drífa í því í hvelli.