Nýtt á nálinni

1. Ég er handavinnufíkill en það er nú kannski sjálfgefið miðað við þetta blogg, ég elska að sauma út og þarf helst að hafa mörg stykki í takinu. Þetta hefur nú nánast leitt til vandræða en UFO dagarnir í saumaklúbbnum mínum eiga vonandi eftir að verða til að ég klári eitthvað.
2. Ég hlusta töluvert á tónlist, það sem fólk veit ekki er að ég hef undarlegann tónlistarsmekk og er til dæmis veik fyrir karlakórs söng og laumast líka til að hlusta á Julio Iglesias svona stundum. Alan Jackson er líka eitt goðið sem ég hlusta á og ég er sérlega hrifin af laginu It's five o'clock somewhere sem er bara snilld og myndbandið ekki síðra. Annars er Muse uppáhaldið mitt og ég get endalaust haft þá í spilaranum.
3. Ég á fimm börn eins og allir sem þekkja mig vita, það sem fólk veit hinsvegar ekki er að ég hef ekki neitt rosalega gaman af börnum. Mér finnast náttúrulega ungabörn sæt og allt það, en er alveg lens ef ég er skilin eftir með krakka á aldrinum 5 - 11 ára til dæmis, ég hef ekki hugmynd um hvað ég á að tala um við þau. Unglingar eru allt annað mál og ég hef alltaf haft gaman af þeim og finnst þeir upp til hópa frábærir.
4. Mér finnst gaman að horfa á Kínverskar bíómyndir, af hverju það er hef ég ekki hugmynd en það er bara eitthvað við þær sem ég er að fíla. Ég hef aldrei séð Titanic og er mjög ánægð með það mér finnst bara akkúrat ekki neitt rómó við að draumaprinsinn krókni úr kulda og drukkni. Ég er líka mikið fyrir Sci Fi myndir og þætti og að sjálfsögðu er Matrix serían í uppáhaldi og Babylon 5 þáttaraðirnar líka.
5. Ég er lélegur kokkur sem er ekki gott þegar maður er með stóra fjölskyldu, ég bara hef nákvæmlega ekki neitt hugmyndaflug í eldhúsinu og vil helst eyða sem minnstum tíma þar. Stefnan hefur alltaf verið að lauma mér á eitthvað gott matreiðslunámskeið en það hefur ekki orðið af því ennþá en ef ekki verður af því þá bara reyni ég að komast hjá að eitra fyrir mannskapnum og elda svo bara með símanum þegar börnin verða flutt að heiman.
Úff nú vitið þig mikið meira um mig en þið vilduð, en nú er komið að mér að klukka fimm aðra bloggara og ég klukka Rósu Bjarna, Hrönn, Ingibjörgu Huldu, Rannveigu Lenu og Hafrúnu, þær eru allar í saumaklúbbnum mínum Allt í Kross.
Þessi mynd er bara ótrúlega skemmtileg í saumum og ég verð vonandi ekki lengi að klára hana. Ég veit ekki hvort ég er svona rosalega mikill þjösni en ég beygi allar perlunálarnar nánast í vinkil um leið og ég byrja að nota þær. Ég þurfti að fara og kaupa mér aukanálar hjá Guðbjörgu í Völusteini í dag og auðvitað þurfti ég að skoða Mill Hill jólaskraut og fékk mér einn vettling til að sauma svona einhverntíma í framtíðinni.
Annars er ég að fara á saumasýningu í London eftir þrjár vikur og hlakka ekki neitt smá til, ég fór á þessa sýningu fyrir tveimur árum með þremur öðrum úr saumaklúbbnum og það var ótrúlega gaman. Ég er nokkuð viss um að ég á eftir að eyða alltof miklum peningum þarna en það verður bara að hafa það, á óskalistanum er meðal annars saumastandur og mig minnir að það hafi verið gott úrval af þeim síðast. En ég er líka veik fyrir allskonar samplerum og á örugglega eftir að bæta nokkrum í safnið núna eins og ég gerði þá en hvernig gengur að sauma þá er svo önnur saga :-)
Nú er ég byrjuð á öðru kitti og það er svona jóla vetrarmynd frá Mill Hill að sjálfsögðu ég er búin með rammann utanum hana og hornin og byrjuð á húfum sem eru efst í myndinni. Ég er ansi spennt fyrir þessari því hún er með sporum sem ég hef aldrei séð áður og mér finnst gaman að auka svona við þekkinguna. Ég ætla að reyna að setja inn frammistöðu mynd þegar ég næ taki á myndasmiðnum hér á bæ en hér er mynd af pakkningunni svona til að sýna hvernig hún lítur út. Þessi mynd er nú ekki alveg nógu góð en dugir í bili.
Vona bara að ég nái því að setja inn mynd á morgun af því sem ég er búin að gera.