Saumalíf

29 september, 2005

Nýtt á nálinni

Ég er að sjálfsögðu byrjuð á nýju Mill Hill kitti eins og ég minntist á og það er snjókarl sem stendur við jólatré. Ég tók mynd af því sem komið er og er bara sátt við árangurinn fram að þessu. Annars er ekki mikið að frétta hér úr veikindabælinu, ég og Hulda erum veikar núna en ég er að hressast og er amk farin að geta saumað meira enda fátt betra þegar maður er ekki til neinna stórræða. Hljóðbókin sem ég talaði um í blogginu í gær er líka alveg frábær og varla að maður tími að slökkva á henni.

Mynd af Mill Hill - Keep Warm

Jæja loksins fékk ég myndavél og tók mynd af Mill Hill stykkinu sem ég var að klára í gær.
Er nokkuð stolt af árangrinum en því miður er myndin léleg hjá mér.


26 september, 2005

Tóm leiðindi

hér á bæ, ég er lasin með lungnabólgu og astma og er langt í frá hress með þetta. Hef lítið saumað og jólalaugardagurinn fór fyrir lítið. Ég hafði bara jólasunnudag í staðinn og kláraði allt nema afturstinginn á snjókallinum, set inn mynd þegar ég kemst í myndavél.

Núna er ég að sauma smá í Mill Hill myndina og á ekki mikið eftir og er búin að velja mér aðra til að byrja á þegar hún klárast. Núna kemur sér semsagt vel að eiga svona birgðir af saumadóti til að grípa í þegar maður er lasin og kemst ekki í búð og ef það er ekki góð ástæða fyrir svona neyðarlager þá veit ég ekki hvað það er.

UFO dagurinn er á morgun og ég ætla að vera með og byrja á að rekja upp það sem ég var búin að sauma af kettinum og byrja á honum uppá nýtt. Ég hef aðeins verið að spá í að bæta við aftursting í myndina mér finnst eins og það vanti smá en sé til hvernig hún lítur út fullsaumuð áður en ég ákveð mig.

Ég er líka aðeins búin að vera að fikta í blogg sniðinu mínu og bætti til dæmis inn svona progress bar eins og ég sá hjá Rósu Bjarna. Finnst þetta algjör snilld og það er hægt að sækja kóðann hingað

Næstu daga ætla ég bara að liggja heima, hlusta á hljóðbækur og sauma út, ég er núna að hlaða niður Tyrannosaur Cannyon eftir Donald Preston . Þetta er svona Sci Fi mystery með helling af hasar eða eins og einn lesandi sagði í ritdóm á Audible.com "Dinosaurs, DNA, cryptic code, intrigue, religion, secret ops and bad guys coming out every which way" ég er alveg að fíla þetta og er bara nokkuð spennt fyrir að byrja að hlusta.

24 september, 2005

Jólalaugardagur - verkefni dagsins

jæja þá er kominn laugardagur enn og aftur og þá er saumaði í jólastykki í saumaklúbbnum mínum Allt í Kross. Ég er að sauma í jólaskraut frá Dimensions, þetta eru sex stykki í pakka og ég er að sauma fyrsta stykkið sem er snjókarl. Staðan í byrjun dags er hérna á myndinni hér að neðan og verður gaman að sjá hvað ég get klárað mikið í dag.

Ég ætlaði náttúrulega til Lindu í dag en er með hálsbólgu dauðans og efast um að ég fari út úr húsi um helgina. Ég var búin að hlakka til að sjá litlu dúlluna þeirra Lindu og Mio og hitta hinar í saumó en maður reynir bara að líta á jákvæðu hliðarnar og ég á t.d. örugglega eftir að sauma meira en venjulega um helgar.

23 september, 2005

Nýtt UFO stykki


Ég er búin að velja mér nýtt UFO stykki og hér er mynd af því að vísu ekki góð en dugir. Ég á bara eftir að sauma köttinn og afturstinginn svo þetta ætti ekki að taka langann tíma. Annars ætla ég að vera dugleg að sauma á jólalaugardegi á morgun og vona bara að ég verði orðin svo frísk að ég komst til Lindu en vil ekki fara ef ég verð ennþá lasin svo ég smiti ekki krílið.

UFO mynd

Ég komst loksins í myndavél til að taka mynd af UFO stykkingu sem ég kláraði á þriðjudaginn og hér er árangurinn:


Aðstoð við saumana


Ég hef fengið ansi góða aðstoð við saumana undanfarið, kisi minn hann Pjakkur er voða spenntur og situr stíft hjá mér á stólarminum og horfir á mig sauma. Hann er kannski að bíða eftir að ég missi niður fleiri perlur sem hann getur elt um gólfin.

Hann er reyndar orðinn 10 ára og algjörlega ofdekraður en við elskum hann öll og kippum okkur ekki upp við það þó hann veki okkur á næturnar þegar hann vantar klapp.

Slappur saumadagur

Jæja þetta hefur verið slappur saumadagur hjá mér eiginlega, hef lítið gert nema sauma smá í Mill Hill enda verið lasin og ómöguleg bara.
Ég er samt að vinna í ennþá að sortera saumadótið mitt og bæta inn á
sölusíðuna mína á yahoo, ég held að það sé gott að hreinsa svona til öðru hverju og losa sig við það sem maður veit að maður kemur ekki til með að sauma. Á reyndar eftir að taka mynd af stórum jólaboðdúk sem er mjög fallegur hef bara ekki þolinmæði í hann held ég. Eins datt mér í hug hérna um árið að sauma svona pallíettu filtdúk, ég komst ekki eins sinni svo langt að opna hann svo best að hann fari líka.
Eina skemmtilega sem ég gerði í dag var að horfa á Manchurian Candidate sem er ágætis mynd og alveg svona þörf áminning um að það er ekki allt sem sýnist.

22 september, 2005

Klukk klukk klukk

Jæja Sveina klukkaði mig og ég þarf að grafa upp einhverjar fimm staðreyndir um mig og hér koma þær:

1. Ég er handavinnufíkill en það er nú kannski sjálfgefið miðað við þetta blogg, ég elska að sauma út og þarf helst að hafa mörg stykki í takinu. Þetta hefur nú nánast leitt til vandræða en UFO dagarnir í saumaklúbbnum mínum eiga vonandi eftir að verða til að ég klári eitthvað.

2. Ég hlusta töluvert á tónlist, það sem fólk veit ekki er að ég hef undarlegann tónlistarsmekk og er til dæmis veik fyrir karlakórs söng og laumast líka til að hlusta á Julio Iglesias svona stundum. Alan Jackson er líka eitt goðið sem ég hlusta á og ég er sérlega hrifin af laginu It's five o'clock somewhere sem er bara snilld og myndbandið ekki síðra. Annars er Muse uppáhaldið mitt og ég get endalaust haft þá í spilaranum.

3. Ég á fimm börn eins og allir sem þekkja mig vita, það sem fólk veit hinsvegar ekki er að ég hef ekki neitt rosalega gaman af börnum. Mér finnast náttúrulega ungabörn sæt og allt það, en er alveg lens ef ég er skilin eftir með krakka á aldrinum 5 - 11 ára til dæmis, ég hef ekki hugmynd um hvað ég á að tala um við þau. Unglingar eru allt annað mál og ég hef alltaf haft gaman af þeim og finnst þeir upp til hópa frábærir.

4. Mér finnst gaman að horfa á Kínverskar bíómyndir, af hverju það er hef ég ekki hugmynd en það er bara eitthvað við þær sem ég er að fíla. Ég hef aldrei séð Titanic og er mjög ánægð með það mér finnst bara akkúrat ekki neitt rómó við að draumaprinsinn krókni úr kulda og drukkni. Ég er líka mikið fyrir Sci Fi myndir og þætti og að sjálfsögðu er Matrix serían í uppáhaldi og Babylon 5 þáttaraðirnar líka.

5. Ég er lélegur kokkur sem er ekki gott þegar maður er með stóra fjölskyldu, ég bara hef nákvæmlega ekki neitt hugmyndaflug í eldhúsinu og vil helst eyða sem minnstum tíma þar. Stefnan hefur alltaf verið að lauma mér á eitthvað gott matreiðslunámskeið en það hefur ekki orðið af því ennþá en ef ekki verður af því þá bara reyni ég að komast hjá að eitra fyrir mannskapnum og elda svo bara með símanum þegar börnin verða flutt að heiman.

Úff nú vitið þig mikið meira um mig en þið vilduð, en nú er komið að mér að klukka fimm aðra bloggara og ég klukka Rósu Bjarna, Hrönn, Ingibjörgu Huldu, Rannveigu Lenu og Hafrúnu, þær eru allar í saumaklúbbnum mínum Allt í Kross.

Til hamingju Rósa

Hún Rósa Tom í saumaklúbbnum mínum Allt í kross eignaðist litla snúllu í morgun, ég óska þeim Rósu, Davíð og Þorbjörgu Eyju innilega til hamingju .

Ég er búin að sjá að það er engin ástæða til að halda að saumaklúbburinn leggist af þó við verðum gamlar og fótafúnar. Í ár eru bæði Linda og Sonja búnar að eignast stelpur og svo eiga vonandi fleiri eftir að bæta við sig stelpum.
Ég reikna fastlega með að þær feti í fótspor mæðra sinna í saumaskapnum og gangi svo í klúbbinn þegar þær hafa aldur til og geta þá aðstoðað okkur gömlu skörin við að komast í hitting :-)

21 september, 2005

Ótrúleg óheppni

Jæja ef einhverjum langar að vita hvernig það er að týna fulla krukku af litlum Mill Hill perlum upp af gólfinu þá get ég segt viðkomandi að það er EKKI gaman.

Ég var sem sagt hérna í góðum fíling að sauma og hlusta á hljóðbók þegar ég fékk þá snilldarhugmynd að standa upp og fá mér kók. Gleymdi hins vegar alveg að krukkan með perlunum var á stólarminum, ég bara horfði á perlurnar skoppa um allt gólf og hugsaði "þetta er ekki að gerast" en jújú þetta var sko heldur betur raunverulegt og ég er sem sagt búin að vera í klukkutíma að sópa og týna perlurnar upp af gólfinu.
Er eiginlega ekki búin að jafna mig alveg og það var ekki til að bæta ástandið að Pjakkur vildi endilega hjálpa mér.

Ég er annars að hlusta á The Undomestic Godess, þetta er svo sem allt í lagi bók en byggir á þessu gamla þema að kona á framabraut lendir í aðstæðum þar sem hún þarf að læra að takast á við heimilishald og finnur ástina í leiðinni eða svona hér um bil.
Hef svona aðeins velt því fyrir mér hvort leiðin til sannrar lífshamingju felist í alvöru í því að kunna að baka og skúra, en hvað veit ég svo sem.
Kannski best að skella í eins og eina köku og sópa upp restinn af perlunum og athuga hvort ég verð ekki bara svona "instant" hamingjusöm.

Tóks að klára....


Jæja mér tókst að klára UFO stykkið mitt í dag gat ekki tekið mynd en bæti úr því fljótlega. Núna verð ég að finna mér annað, það er svo sem ekki vandamál það eru til nokkur ókláruð verkefni ofaní skúffum.
Ég saumaði líka í Mill Hill myndina mína og hér er staðan á henni í kvöld


Þessi mynd er bara ótrúlega skemmtileg í saumum og ég verð vonandi ekki lengi að klára hana. Ég veit ekki hvort ég er svona rosalega mikill þjösni en ég beygi allar perlunálarnar nánast í vinkil um leið og ég byrja að nota þær. Ég þurfti að fara og kaupa mér aukanálar hjá Guðbjörgu í Völusteini í dag og auðvitað þurfti ég að skoða Mill Hill jólaskraut og fékk mér einn vettling til að sauma svona einhverntíma í framtíðinni.

Annars er ég að fara á saumasýningu í London eftir þrjár vikur og hlakka ekki neitt smá til, ég fór á þessa sýningu fyrir tveimur árum með þremur öðrum úr saumaklúbbnum og það var ótrúlega gaman. Ég er nokkuð viss um að ég á eftir að eyða alltof miklum peningum þarna en það verður bara að hafa það, á óskalistanum er meðal annars saumastandur og mig minnir að það hafi verið gott úrval af þeim síðast. En ég er líka veik fyrir allskonar samplerum og á örugglega eftir að bæta nokkrum í safnið núna eins og ég gerði þá en hvernig gengur að sauma þá er svo önnur saga :-)

20 september, 2005

UFO dagur

Alla þriðjudaga eru UFO dagar í saumaklúbbnum mínum, mér hefur nú tekist með lagni að komast hjá að klára neitt, en nú verður vonandi breyting á.
Ég er semsagt búin að finna munstrið af stykkinu sem ég ætlaði að klára svo nú hef ég enga afsökun lengur. Ég á ekki mikið eftir en þetta hefur vafist ótrúlega fyrir mér að klára þetta. Upphaflega átti þessi mynd að vera búin áður en ég flytti inn í Engihjallann en ég náði ekki að klára hana í tæka tíð.
En núna sem sagt ælta ég að bretta upp ermarnar og vona að allt gangi vel, ég er aðeins stressuð yfir kögri sem ég þarf að gera á trefil en Linda var búin að sýna mér hvernig þetta er gert og ég vona að ég muni það ennþá.

Fyrsta tilraun til bloggs


Jæja þá er ég komin með blogg eins og allir aðrir! Vona að þetta hjálpi mér til að halda utan um handavinnuna hjá mér og ég verði dugleg að skrifa hérna inn einhverjar ódauðleg ummæli :-)
Ég kláraði á laugardagskvöldið jólamynd frá Mill Hill, þetta er fyrsta kittið sem ég sauma frá þeim og ég er vægast sagt hrifin. Að sjálfsögðu naut ég góðrar leiðsagnar frá Guðbjörgu og hefði sjálfsagt lent í ansi mörgum óþarfa gildrum ef hennar hefði ekki notið við. Hér að neðan er mynd af árangrinum.


Nú er ég byrjuð á öðru kitti og það er svona jóla vetrarmynd frá Mill Hill að sjálfsögðu ég er búin með rammann utanum hana og hornin og byrjuð á húfum sem eru efst í myndinni. Ég er ansi spennt fyrir þessari því hún er með sporum sem ég hef aldrei séð áður og mér finnst gaman að auka svona við þekkinguna. Ég ætla að reyna að setja inn frammistöðu mynd þegar ég næ taki á myndasmiðnum hér á bæ en hér er mynd af pakkningunni svona til að sýna hvernig hún lítur út. Þessi mynd er nú ekki alveg nógu góð en dugir í bili.


Vona bara að ég nái því að setja inn mynd á morgun af því sem ég er búin að gera.